Fréttir

Vatnsholt 1 og 3

Vatnsholt 1 og 3

Lokið er byggingu Leigufélags aldraðra hses á 51 íbúð á s.k. Stýrimannaskólareit við Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík. Nú hafa allar þessar íbúðir verið leigðar út. Það er einróma álit kunnugra að vel hafi tekist til við hönnun og byggingu húsanna. Íbúðirnar þykja þægilegar, öllu er haganlega fyrir komið og nýting rýma góð. Við óskum íbúum til hamingju og vonum að þeim eigi eftir að líða vel við Vatnsholtið.

Dalbraut 6, Akranesi

Dalbraut 6, Akranesi

Nú er bygging LA á Akranesi komin vel á veg og gert er ráð fyrir að íbúðir þar verði afhentar leigjendum í febrúar 2024. Úthlutarferli hefst á næstu vikum. Tilkynnt verður um það þegar nær dregur.

Eftirfarandi tilkynning var send aðilum að Leigufélagi aldraðra hses. 5. janúar 2023

Heil og sæl og gleðilegt ár.

Vegna veðurs að undanförnu, frosts og snjókyngi verður því miður ekki hægt að afhenda íbúðir við Vatnsholt 3 í febrúar 2023 eins og fyrirhugað var.

Ástæðan er sú að ekki tókst að steypa undirstöður fyrir sorpgeymslu og hjólaskýli vegna frostatíðar. Ekki náðist heldur að malbika bílastæði.
Jákvæð öryggisúttekt fæst ekki fyrr en þessum framkvæmdum er lokið og þess vegna fáum við ekki leyfi til þess að afhenda íbúðirnar til búsetu þó að þær séu sem slíkar nánast tilbúnar.

Það sem til þarf er tveggja vikna frostlaus kafli og aðrar tvær til þrjár vikur til þess að klára umrædd verk. Við stefnum að sjálfsögðu að afhendingu íbúðanna eins fljótt og auðið er.

Við munum upplýsa ykkur strax og hægt verður hvenær afhending íbúða getur átt sér stað.

Á næstunni hefst ferli fyrir umsóknir og útleigu. Nánari útskýringar verða sendar væntanlegum leigjendum.

5. janúar 2023

SHP-ráðgjöf, Vildarhús ehf.

Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara

Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara

Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara

Með lífsgæðakjarna er átt við húsnæðisuppbyggingu fyrir aldraða sem er með fjölbreytt framboð af þjónustu í nærumhverfinu. Við Leirtjörn vestur í Úlfarsárdal, í Gufunesi og við Ártúnshöfða er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum fyrir eldri borgara.

Þegar er ákveðið að gera samning við Samtök aldraðra og Leigufélag aldraðra en fulltrúar þeirra og borgarstjóri hittust í dag við Leirtjörn þar sem skrifað var undir viljayfirlýsingu við báða samstarfsaðila um íbúðir í lífsgæðakjörnum.

Leirtjörn, Gufunes og Ártúnshöfði
Leigufélag aldraðra fær vilyrði fyrir 50 íbúðum við Leirtjörn sem verða tilbúnar á árunum 2024-2025. Leigufélagið hefur einnig fengið vilyrði fyrir allt að 70 íbúðum í Gufunesi og allt að 30 íbúðum á Ártúnshöfða sem koma til úthlutunar á árunum 2026 og 2027.

Áhersla á fjölbreytt búsetuform
Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa eftir samstarfsaðilum og hugmyndum um þróun á völdum reitum í Reykjavík fyrir eldri borgara.
Í slíkum kjörnum er lögð áhersla á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðir, búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir og jafnvel hjúkrunaríbúðir eða hjúkrunarheimili ásamt öðru íbúðahúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Með þessu væri hægt að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og ólíkum þörfum er mætt.

Fyrsta skóflustunga við Dalbraut 6 á Akranesi

Fyrsta skóflustunga við Dalbraut 6 á Akranesi

Þann 19. apríl var fyrsta skóflustungan tekin að nýju 31 íbúðar fjölbýlishúsi Leigufélags aldraðra hses. við Dalbraut 6 á Akranesi, á lóðinni þar sem vöruhús ÞÞÞ stóð áður. 

Hægt er að skoða ýtarlegri frétt á skessuhorn með því að smella hér

Fyrsta skóflustunga við Vatnsholt 1-3

Fyrsta skóflustunga við Vatnsholt 1-3

Fyrsta skóflustunga fyrir leiguíbúðum við Vatnsholt 1-3 í Reykjavík, miðvikudag 17.3.2021 kl. 15:30

Leigufélag aldraðra hses var stofnað 2018 á grundvelli laga um almennar íbúðir frá júní 2016. Markmið laganna var að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til þess að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Samkvæmt lögunum geta stofnframlög ríkis og sveitarfélaga numið 30% af stofnkostnaði og jafnvel meira við sérstakar aðstæður. Þá er heimilt að reka félagið í deildum.

Stofnaðili Leigufélagsins aldraðra var Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með því skilyrði að í stofnsamningi væri ákvæði um að væntanlegir leigjendur væru félagar í FEB. Leigufélagið er að öðru leyti húsnæðissjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og rekið án hagnaðarsjónarmiða eins og mælt er fyrir í lögum. Leigufélagið fékk úthlutað lóð við Vatnsholt 1-3 á svokölluðum Sjómannaskólareit í apríl 2018.

Nú um þremur árum síðar er hönnun og undirbúningi lokið.

Leigufélag aldraðra hses byggir nú 51 íbúð í tveimur 3ja hæða húsum með lyftu. Um er að ræða 2ja og 3ja herbergja íbúðir.

Húsin verða byggð úr steinsteyptum einingum og áætluð verklok eru á þriðja ársfjórðungi 2022.

Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður FEB, Ólafur Örn Ingólfsson, stjórnarformaður Leigufélags aldraðara, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri tóku fyrstu skóflustunguna að fyrstu leiguíbúðum félagsins.