Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara
Með lífsgæðakjarna er átt við húsnæðisuppbyggingu fyrir aldraða sem er með fjölbreytt framboð af þjónustu í nærumhverfinu. Við Leirtjörn vestur í Úlfarsárdal, í Gufunesi og við Ártúnshöfða er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum fyrir eldri borgara.
Þegar er ákveðið að gera samning við Samtök aldraðra og Leigufélag aldraðra en fulltrúar þeirra og borgarstjóri hittust í dag við Leirtjörn þar sem skrifað var undir viljayfirlýsingu við báða samstarfsaðila um íbúðir í lífsgæðakjörnum.
Leirtjörn, Gufunes og Ártúnshöfði
Leigufélag aldraðra fær vilyrði fyrir 50 íbúðum við Leirtjörn sem verða tilbúnar á árunum 2024-2025. Leigufélagið hefur einnig fengið vilyrði fyrir allt að 70 íbúðum í Gufunesi og allt að 30 íbúðum á Ártúnshöfða sem koma til úthlutunar á árunum 2026 og 2027.
Áhersla á fjölbreytt búsetuform
Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa eftir samstarfsaðilum og hugmyndum um þróun á völdum reitum í Reykjavík fyrir eldri borgara.
Í slíkum kjörnum er lögð áhersla á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðir, búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir og jafnvel hjúkrunaríbúðir eða hjúkrunarheimili ásamt öðru íbúðahúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Með þessu væri hægt að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og ólíkum þörfum er mætt.