Fyrsta skóflustunga fyrir leiguíbúðum við Vatnsholt 1-3 í Reykjavík, miðvikudag 17.3.2021 kl. 15:30

Leigufélag aldraðra hses var stofnað 2018 á grundvelli laga um almennar íbúðir frá júní 2016. Markmið laganna var að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til þess að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Samkvæmt lögunum geta stofnframlög ríkis og sveitarfélaga numið 30% af stofnkostnaði og jafnvel meira við sérstakar aðstæður. Þá er heimilt að reka félagið í deildum.

Stofnaðili Leigufélagsins aldraðra var Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með því skilyrði að í stofnsamningi væri ákvæði um að væntanlegir leigjendur væru félagar í FEB. Leigufélagið er að öðru leyti húsnæðissjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og rekið án hagnaðarsjónarmiða eins og mælt er fyrir í lögum. Leigufélagið fékk úthlutað lóð við Vatnsholt 1-3 á svokölluðum Sjómannaskólareit í apríl 2018.

Nú um þremur árum síðar er hönnun og undirbúningi lokið.

Leigufélag aldraðra hses byggir nú 51 íbúð í tveimur 3ja hæða húsum með lyftu. Um er að ræða 2ja og 3ja herbergja íbúðir.

Húsin verða byggð úr steinsteyptum einingum og áætluð verklok eru á þriðja ársfjórðungi 2022.

Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður FEB, Ólafur Örn Ingólfsson, stjórnarformaður Leigufélags aldraðara, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri tóku fyrstu skóflustunguna að fyrstu leiguíbúðum félagsins.